Birting lýsingar og hlutafjárútboð Hampiðjunnar

Birting lýsingar og hlutafjárútboð Hampiðjunnar

Birting lýsingar og hlutafjárútboð Hampiðjunnar - mynd

Hampiðjan, leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í þróun, sölu og þjónustu á framúrskarandi veiðarfærum til fiskiskipa, búnaði til fiskeldis og þróun og framleiðslu á ofurköðlum, hefur birt lýsingu vegna almenns útboðs og fyrirhugaðrar skráningar á Aðalmarkað Nasdaq Iceland.

Arion banki hf. hefur umsjón með almenna útboðinu og töku hlutabréfa félagsins til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland hf.

Helstu upplýsingar um hlutafjárútboð og fyrirhugaða töku til viðskipta á Aðalmarkaði

 • 85.000.000 nýir hlutir í félaginu verða boðnir til sölu í almennu útboði, sem jafngildir 13,37% af heildarhlutafé eftir hlutafjárhækkun þess efnis.
 • Almenna útboðið skiptist í tvær áskriftarbækur, Áskriftarbók A þar sem 17.000.000 nýir hlutir verða boðnir til sölu á föstu verði 120 kr. á hlut og Áskriftarbók B þar sem 68.000.000 nýir hlutir verða boðnir til sölu á lágmarksverði 120 kr. á hlut.
 • Lágmarksverðið í almenna útboðinu, 120 kr. á hlut, jafngildir 14% afslætti á vegið meðalverð (VWAP) hlutabréfa Hampiðjunnar á First North Iceland síðasta mánuðinn.
 • Áskriftartímabil hefst kl. 10:00 að íslenskum tíma þann 25. maí og stendur til kl. 14:00 þann 2. júní 2023.
 • Nánari upplýsingar um útboðið og skilmála sem um það gilda má finna í lýsingu Hampiðjunnar, sem er staðfest af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands og birt í dag, 24. maí 2023.
 • Sótt hefur verið um töku hlutabréfa félagsins til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Gert er ráð fyrir að hlutabréf félagsins verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði þann 9. júní n.k., að því gefnu að Nasdaq Iceland samþykki umsókn félagsins um töku til viðskipta fyrir þann tíma.

Um Hampiðjuna

 • Hampiðjan var stofnuð árið 1938 og er í dag leiðandi alþjóðlegt fyrirtæki í framleiðslu og sölu veiðarfæra, búnaði til fiskeldis og fyrir útsjávariðnaðinn. Félagið er með starfsemi á 21 landsvæði í 51 dótturfyrirtækjum sem hafa alls 76 starfsstöðvar, en þær ná allt frá ysta odda Alaska til suðureyja Nýja-Sjálands. Hjá fyrirtækinu starfa um 2.000 manns á heimsvísu.
 • Skráning hlutabréfa félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland mun auka sýnileika Hampiðjunnar og veita aðgengi að breiðari hópi fjárfesta. Útboð á nýju hlutafé mun einnig styrkja fjárhagsskipan félagsins og gera því kleift að raungera samlegðartækifæri sem felast í kaupum þess á Mørenot.
 • Fyrirhugað er að um 60% af ágóða almenna útboðsins verði nýttur til endurskipulagningar á langtímaskuldum Mørenot og að 40% verði nýtt í fjárfestingar til að nýta samlegðartækifæri tengd kaupunum.
 • Nýsköpun og vöruþróun spila lykilþátt í starfsemi Hampiðjunnar og einkunnarorð félagsins eru að stöðug vöruþróun sé kjarninn í starfsemi þess. Einkaleyfi Hampiðjunnar eru um 41 talsins.
 • Hampiðjan hefur vaxið mikið á undanförnum árum með samrunum og yfirtökum samhliða sterkum innri vexti. Samkvæmt pro forma upplýsingum fyrir samstæðu Hampiðjunnar og Mørenot árið 2022 hafa rekstrartekjur samstæðunnar tæplega sexfaldast síðan 2013 og EBITDA rúmlega fimmfaldast, sé leiðrétt fyrir einskiptisliðum.
 • Á tímabilinu 2015 – 2022 má rekja um 60% af aukningu í tekjum Hampiðjunnar til ytri vaxtar en 40% til innri vaxtar. Þegar litið er á EBITDA má rekja um 50% af aukningu til ytri vaxtar og 50% til innri vaxtar.
 • Félagið hefur fjárfest duglega á undanförnum árum í innviðum og framleiðslutækjum. Hampidjan Baltic, meginframleiðslueining félagsins er ein tæknilega fullkomnasta veiðarfæraverksmiðja í heimi.
 • Gert er ráð fyrir að heildartekjur samstæðunnar 2023, eftir kaupin á Mørenot, komi til með að nema 320 - 340 milljón evrum og að EBITDA hlutfall verði á bilinu 13,5 – 14,5%, leiðrétt fyrir einskiptisliðum tengdum kaupunum og fyrirhuguðu hlutafjárútboði. Hampiðjan sér fram á mikla samlegð í kaupunum á Mørenot og er gert fyrir að heildartekjur 2027 muni nema um 420 – 440 milljón evrum og EBITDA hlutfall á bilinu 16,5% - 17,5% eftir að tækfæri til samlegðar hafa verið nýtt að mestu.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um Hampiðjuna, hlutabréf félagsins og skilmála útboðsins má finna í lýsingu félagsins sem dagsett er 24. maí 2023 auk fjárfestakynningar sem birt hefur verið á www.arionbanki.is/hampidjan.

Aðstoð vegna útboðsins má nálgast hjá Verðbréfaráðgjöf Arion banka í síma 444-7000 milli kl. 09.30 og 15.30 dagana 25. maí til 2. júní 2023 og tölvupóstfanginu hampidjan@arionbanki.is.