6,5 milljarða króna hlutafjáraukning Ice Fish Farm

6,5 milljarða króna hlutafjáraukning Ice Fish Farm

6,5 milljarða króna hlutafjáraukning Ice Fish Farm - mynd

Ice Fish Farm hefur lokið 44 milljóna evra hlutafjáraukningu, sem nemur um 6,5 milljörðum króna. Um er að ræða útgáfu rúmlega 18 milljóna nýrra hlutabréfa í félaginu. Fóru viðskiptin fram á genginu 27,6 norskar krónur á hlut sem felur í sér 5,2% afslátt frá lokagengi gærdagsins, 30. mars. Umfram eftirspurn var eftir nýju hlutafé félagsins.

Fjölbreyttur hópur innlendra og erlendra fjárfesta kom að hlutafjáraukningunni, bæði nýir og núverandi hluthafar félagsins. Liður í viðskiptunum var einnig breyting lána frá stærstu hluthöfum Ice Fish Farm.

Þann 27. febrúar síðastliðinn tilkynnti félagið að það hefði tryggt sér lánsfjármögnun að fjárhæð 156 milljónir evra og var framangreind hlutafjáraukning hluti af þeirri endurfjármögnun. Nýtt hlutafé, ásamt lánsfjármögnuninni, verður notað til uppbyggingar lífmassa og fjárfestinga á næstu tveimur árum.

Arion banki ásamt DNB Bank og Nordea Bank veittu félaginu ráðgjöf og höfðu umsjón með hlutafjárútboðinu.