Arion banki ráðgjafi Eðalfangs í hlutafjáraukningu

Arion banki ráðgjafi Eðalfangs í hlutafjáraukningu

Frá vinstri: Berglind Halldórsdóttir, Horn IV, Steinar Helgason, Horn IV, Hermann M. Þórisson, Horn IV, Engilbert Hafsteinsson, Eðalfang, Kristján Baldvinsson, Eðalfang, Gestur B. Gestsson, Eðalfang - myndFrá vinstri: Berglind Halldórsdóttir, Horn IV, Steinar Helgason, Horn IV, Hermann M. Þórisson, Horn IV, Engilbert Hafsteinsson, Eðalfang, Kristján Baldvinsson, Eðalfang, Gestur B. Gestsson, Eðalfang

Framtakssjóðurinn Horn IV slhf. hefur fjárfest í Eðalfangi og verður með kaupunum stærsti einstaki hluthafi félagsins. Um er að ræða útgáfu nýs hlutafjár en jafnframt leggja núverandi hluthafar félaginu til nýtt fjármagn en heildarfjármögnun nemur 1.000 milljónum króna. Arion banki og Nordik Legal voru ráðgjafar seljenda og Akrar Consult og Logos voru ráðgjafar kaupanda.

Fjármagnið sem kemur inn í félagið verður nýtt til fjárfestinga í tækjabúnaði og sjálfvirknivæðingu sem mun nýtast félaginu við uppbyggingu og eflingar á vinnslu til framleiðslu á laxi með áherslu á útflutning og til að fylgja eftir og efla sölu- og markaðsstarf á alþjóðlegum mörkuðum.

Eðalfang er í grunninn tvö matvælafyrirtæki með áherslu á sjávarútveg; Eðalfiskur ehf. í Borgarnesi og Norðanfiskur ehf. á Akranesi. Bæði fyrirtækin framleiða hágæða sjávarfang, hvort á sínu sviði. Eðalfiskur sérhæfir sig í framleiðslu, sölu og dreifingu á úrvals ferskum, frystum, reyktum og gröfnum laxaafurðum þar sem stór hluti afurða fyrirtækisins er seldur á erlendum mörkuðum. Norðanfiskur ehf. sérhæfir sig í framleiðslu, sölu og dreifingu á úrvals sjávarfangi til veitinga- og stóreldhúsa á innanlandsmarkaði ásamt sölu neytendapakkninga í verslunum um land allt. Fyrirtækin eru með 62 starfsmenn og viðskiptavini í 9 löndum.

Horn IV er framtakssjóður í rekstri Landsbréfa sem hóf starfsemi á síðasta ári og fjárfestir í óskráðum íslenskum fyrirtækjum. Sjóðurinn er 15 ma. kr. að stærð og eru kaupin þriðja fjárfesting sjóðsins en fjárfestingartímabil hans er til loka júlí árið 2025.