Arion banki ráðgefandi þegar Horn IV keypti hlut í S4S

Arion banki ráðgefandi þegar Horn IV keypti hlut í S4S

Höfuðstöðvar Arion banka, Borgartúni 19 - myndHöfuðstöðvar Arion banka, Borgartúni 19

Framtakssjóðurinn Horn IV slhf. hefur gengið frá kaupum á hlut í fyrirtækinu S4S ehf. sem rekur verslanirnar Steinar Waage, Kaupfélagið, Ecco, Skechers og Toppskóinn, ásamt AIR verslununum og Ellingsen í Reykjavík og á Akureyri. Dótturfélag fyrirtækisins er S4S tæki ehf. sem rekur tækjasölu og verkstæði BRP Ellingsen. Velta samstæðunnar árið 2021 voru tæpir fimm milljarðar króna. Fjármálaráðgjöf Deloitte hafði umsón með söluferlinu og fyrirtækjaráðgjöf Arion banka var ráðgjafi kaupanda.

Eftir viðskiptin mun Horn IV eiga 22% hlut í félaginu en við kaupin voru annars vegar keyptir hlutir af núverandi hluthöfum og hins vegar var hlutafé hækkað og skrifaði Horn IV sig fyrir allri þeirri hækkun. Eftir sem áður eru Pétur Þór Halldórsson, forstjóri félagsins, og Sjávarsýn ehf., eignarhaldsfélag Bjarna Ármannssonar, stærstu hluthafar félagsins.

S4S hefur vaxið mikið á undanförnum árum og þá sérstaklega í netverslun en félagið rekur netverslanirnar S4S.is, Skór.is, Ellingsen.is, Air.is, BRP.is og Rafhjólasetur.is. Nýlega opnaði félagið nýja verslun í Smáralind sem þjónustar netverslunarhluta fyrirtækisins. Stefnt er að áframhaldandi vexti félagsins og fyrirhugað er að skrá það á hlutabréfamarkað innan fárra ára.

Horn IV er 15 milljarða framtakssjóður í rekstri Landsbréfa sem fjárfestir í óskráðum íslenskum fyrirtækjum með góða rekstrarsögu. Auk þess er lögð áhersla á að fyrirtæki sem sjóðurinn fjárfestir í tileinki sér sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð í starfsemi sinni og mun sjóðurinn styðja félögin í að ná umbótum á sviði UFS-þátta. Sjóðurinn hóf starfsemi á árinu 2021 og yrði þetta önnur fjárfesting sjóðsins en fjárfestingartímabil hans er til loka júlí 2025.