Arion banki menntafyrirtæki ársins

Arion banki menntafyrirtæki ársins

Arion banki menntafyrirtæki ársins - mynd

Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt á Hilton Nordica þriðjudaginn 11. febrúar 2025, þar sem Arion banki hlaut viðurkenningu sem menntafyrirtæki ársins.

Það eru Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög sem standa að verðlaununum. Á fjórða tug tilnefninga bárust í ár og valdi dómnefnd Arion banka úr hópi þriggja fyrirtækja sem þóttu skara fram úr í fræðslu- og menntamálum árið 2024. Hin fyrirtækin voru BM Vallá og BYKO.

 „Ég er í skýjunum með þetta,“ segir Alma Hannesdóttir, fræðslustjóri Arion, sem tók við verðlaununum fyrir hönd bankans. „Við leitum stöðugt leiða til að gera fræðsluna markvissari, skemmtilegri og fjölbreyttari og þetta er frábær staðfesting þess að við höfum verið að vinna gott starf og erum á hárréttri leið. Og við ætlum bara að halda áfram að gera enn betur.“

Umsögn dómnefndar um Arion:

„Framsækið og faglegt fræðslustarf. Starfsfólk þróar námsefnið á frumlegan hátt, fræðsluvísitala er innbyggð í fræðslustarfið og vel er haldið utan um starfsþróun innan fyrirtækisins.“

Helga Halldórsdóttir, forstöðumaður mannauðs, kveðst einnig vera virkilega stolt af þessum verðlaunum; þau séu viðurkenning á þeim mikla metnaði og vinnu sem hefur farið í að byggja upp öfluga fræðslumenningu hjá Arion samstæðunni.

„Við leggjum mikla áherslu á fjölbreytta fræðslu sem styrkir færni og þekkingu starfsfólks og veitir þeim tækifæri til að vaxa í starfi. Ég vil þakka sérstaklega fræðslustjóranum okkar, henni Ölmu, frábæru mannauðsteymi og samstarfsfólki fyrir ómetanlega vinnu við að efla fræðslu og starfsþróun innan fyrirtækisins.“

Viðurkenningu fyrir menntasprota ársins hlaut Alda, hugbúnaðarfyrirtæki sem býður upp á tæknilausn fyrir fjölbreytileika og inngildingu (DEI eða Diversity, Equity & Inclusion). Svo skemmtilega vill til að Arion er í samstarfi við Öldu í tengslum við inngildingu á vinnustaðnum.