Arion banki er aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi

Arion banki er aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi

Arion banki er aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi - mynd

Í lok september undirritaði Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, nýjar meginreglur um ábyrga bankastarfsemi (Principles for Responsible Banking) sem formlega voru kynntar við upphaf Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York. Markmið meginreglnanna er að tengja bankastarfsemi við alþjóðleg markmið og skuldbindingar á borð við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsamkomulagið.

130 bankar frá 49 löndum skrifuðu undir aðild að meginreglunum sem mótaðar voru af 30 alþjóðlegum bönkum og UNEP FI (e. United Nations Environmental Programme – Finance Initiative). UNEP FI er samstarfsvettvangur umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og yfir 250 fyrirtækja og stofnana í fjármálageiranum víðs vegar um heim. Þar er fjallað er um áskoranir í samfélags- og umhverfismálum.

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna:

,,Meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi eru leiðarvísir fyrir banka heimsins til að bregðast við, knýja á um og njóta góðs af hagkerfi sem byggist á sjálfbærni. Þær skapa ábyrgðarskyldu og auka metnað til aðgerða.“

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka:

„Við sem störfum hjá Arion banka leggjum mikla áherslu á að starfa á ábyrgan hátt og í sátt við samfélag og umhverfi. Meginreglur um ábyrga bankastarfsemi ríma mjög vel við stefnu bankans og því er það okkur sönn ánægja að vera í hópi fyrstu banka til að lýsa því yfir að við ætlum að fylgja þessum meginreglum.
Hamfarahlýnun af mannavöldum er ein stærsta ógn sem mannkynið stendur frammi fyrir og við þurfum öll að leggja okkar af mörkum til að snúa þeirri þróun við. Loftslagsvandinn mun ekki leysast af sjálfu sér og því þarf margt að breytast á næstu árum og áratugum. Þær breytingar þarf að fjármagna og það er gríðarlega mikilvægt að bankar heimsins dragi vagninn en reki ekki lestina varðandi orkuskipti og græna innviðauppbyggingu. Meginreglurnar munu meðal annars hjálpa okkur á þeirri vegferð.“

Sex meginreglur um ábyrga bankastarfsemi:

  1. Aðlögun: Við munum aðlaga stefnu okkar og leggja okkar af mörkum til að mæta þörfum einstaklinga og markmiðum samfélagsins, eins og þau eru skilgreind í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, Parísarsamkomulaginu og öðrum viðeigandi lögum og reglum.
  2. Áhrif: Við munum stöðugt leitast við að auka jákvæð áhrif og draga úr neikvæðum áhrifum af starfsemi okkar, vörum og þjónustu á einstaklinga og umhverfi, m.a. með því að stýra áhættu. Við setjum okkur og birtum markmið í tengslum við þá þætti sem við höfum mest áhrif á.
  3. Viðskiptavinir: Við munum vinna að sjálfbærni á ábyrgan hátt með viðskiptavinum okkar og styðja við starfsemi sem skapar sameiginlegt virði fyrir núlifandi og komandi kynslóðir.
  4. Hagsmunaaðilar: Við munum vinna náið með viðeigandi hagsmunaaðilum, af árvekni og ábyrgð, til að ná fram markmiðum samfélagsins.
  5. Stjórnarhættir og markmið: Við munum hrinda skuldbindingum okkar gagnvart meginreglunum í framkvæmd með skilvirkum stjórnarháttum og menningu sem einkennist af ábyrgri bankastarfsemi.
  6. Gegnsæi og ábyrgð: Við munum reglulega fara yfir framkvæmd okkar á meginreglunum og miðla árangri; jákvæðum og neikvæðum áhrifum af starfseminni og framlagi til markmiða samfélagsins, á ábyrgan og gegnsæjan hátt.