Arion banki viðheldur framúrskarandi einkunn í UFS áhættumati Reitunar

Arion banki viðheldur framúrskarandi einkunn í UFS áhættumati Reitunar

Arion banki viðheldur framúrskarandi einkunn í UFS áhættumati Reitunar - mynd

Arion banki hlýtur einkunnina „framúrskarandi“ í UFS áhættumati Reitunar, fær 90 stig af 100 mögulegum og er í flokki A3. Matið byggist á árangri bankans á sviði umhverfis- og félagsþátta og stjórnarhátta (UFS). Bankinn er vel fyrir ofan meðaltal í öllum flokkum en 35 aðilar hafa farið í gegnum matið. Er þetta þriðja árið í röð sem bankinn fær þessa einkunn.

Í niðurstöðum Reitunar kemur meðal annars fram að bankinn standi sig vel í UFS málum og vinni áfram ötullega að málaflokknum. Sjálfbærniáhætta sé formlega skilgreind sem hluti af áhættuvilja bankans og bankinn hafi framkvæmt loftslagstengt áhættumat á rekstrinum út frá TCFD (Task Force on Climate Related Financial Disclosures). Jákvætt sé að aðkoma stjórnar og stjórnenda að sjálfbærnitengdum málefnum sé virk.

Mikilvægur þáttur fyrir fjármálafyrirtæki er innleiðing á UFS þáttum í eignastýringa- og lánastarfsemi og vinnur bankinn þar vel að mati Reitunar. Bankinn hefur skuldbundið sig að vinna eftir viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi (e. UN PRB) og er þátttakandi í PCAF, loftslagsmæli fyrir fjármálafyrirtæki. Bankinn gaf nýverið út sína fyrstu skýrslu um fjármagnaðan útblástur.

Um mitt ár 2021 birti bankinn græna fjármálaumgjörð og hefur síðan þá farið í fjórar grænar skuldabréfaútgáfur. Bankinn hefur birt skýrslu um áhrif og ráðstöfun fjármagns skuldabréfanna og mun gera það árlega. Arion banki hefur lagt aukna áherslu á vöru- og þjónustuframboð sitt og náð þar árangri; grænn innlánsreikningur bankans hefur hlotið góðar viðtökur og býður bankinn jafnframt upp á græn bílalán, íbúðalán og fyrirtækjalán.

Bankinn horfir til UFS þátta í mati á aðfangakeðju sinni og stendur þar framarlega í samanburði við markaðinn að mati Reitunar. Arion banki hefur sterk tengsl við samfélagið og hefur sett nýja styrktarstefnu sem leggur áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Vel er staðið að mannauðsmálum innan bankans og mælist starfsánægja áfram góð.

Niðurstöður endurspegla það mat Reitunar að Arion banki sýni mikinn vilja til að gera vel í sjálfbærnitengdum málefnum og hafi náð góðum árangri. Bankinn þekki þau áhrif sem hann getur haft, samfélaginu og umhverfinu til góða og er sé gott fordæmi fyrir íslenskan markað.

Hrafnhildur Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Reitun:

,,Arion banki heldur áfram góðri vinnu að sjálfbærni í starfsemi sinni og heldur því framúrskarandi einkunn í UFS sjálfbærnimati hjá Reitun. Er bankinn þar meðal þeirra þriggja fyrirtækja sem eru með mestan fjölda punkta og er bankinn fyrir ofan meðaltal í öllum flokkum matsins. Mikið liggur á bönkum á heimsvísu að standa þétt að sjálfbærni í starfseminni m.a. í vöru- og þjónustuframboði, lánastarfsemi og eignastýringu. Kröfur samfélagsins og regluverksins halda áfram að aukast sem gerir það enn mikilvægara fyrir bankann að vera búinn undir breytingar. Bankinn hefur mikil tækifæri að beita sér til góðs og jákvætt að sjá þær aðgerðir sem bankinn hefur nú þegar ráðist í og stefnir að.“

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka:

„Kröfur Reitunar vegna frammistöðu fyrirtækja á sviði umhverfis- og félagsþátta og stjórnarhátta hafa aukist á milli ára. Við erum því sérstaklega ánægð með að vera áfram í flokki framúrskarandi fyrirtækja. Á þessu ári höfum við meðal annars farið í tvær grænar skuldabréfaútgáfur og birt skýrslu um fjármagnaðan útblástur bankans sem er gott innlegg í stefnumótun okkar í tengslum við lánveitingar og fjárfestingar. Þá höfum við haldið áfram að innleiða áherslur okkar á sjálfbærni í starfsemina. Þessi málefni skipta okkur miklu og við ætlum að gera enn betur með hag viðskiptavina okkar og samfélagsins alls til grundvallar.“

Arion banki UFS reitun – samantekt á niðurstöðum 2022