Arion banki styður sprotafyrirtækið SoGreen og menntun stúlkna í Sambíu með kaupum á kolefniseiningum

Arion banki styður sprotafyrirtækið SoGreen og menntun stúlkna í Sambíu með kaupum á kolefniseiningum

Guðný Nielsen framkvæmdstjóri SoGreen og Hlédís Sigurðardóttir sjálfbærnistjóri Arion banka. - myndGuðný Nielsen framkvæmdstjóri SoGreen og Hlédís Sigurðardóttir sjálfbærnistjóri Arion banka.

Nýverið undirrituðu íslenska sprotafyrirtækið SoGreen og Arion banki samstarfssamning í tengslum við kaup á óvirkum kolefniseiningum sem verða til við að tryggja menntun stúlkna í Sambíu. Er bankinn þar með í hópi fjölbreyttra fyrirtækja, sjóða, félaga og stofnana sem mynda brautryðjendahóp og gera verkefni SoGreen í Sambíu að veruleika.

Verkefni SoGreen hefst nú í ársbyrjun og er stefnt að því að tryggja um 200 stúlkum á unglingsaldri sem búa við sárafátækt í Monze-héraði fimm ára skólamenntun. Um er að ræða fyrsta loftslagsverkefni sinnar tegundar í heiminum, íslenska nýsköpun sem byggir á jafnréttishugsun. Markmið verkefnisins er, auk þess að leiða til samdráttar í framtíðarlosun gróðurhúsalofttegunda, að tryggja mannréttindi berskjaldaðra stúlkna, auka jafnrétti, heilbrigði og efla fátæk samfélög sem verða hvað mest fyrir neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga.

SoGreen magngreinir þann samdrátt í losun CO2-ígilda sem verkefnið leiðir af sér. Fyrir hvert forðað tonn af CO2-ígildi framleiðir SoGreen eina kolefniseiningu. Menntun er ein áhrifaríkasta leiðin til að fyrirbyggja barnahjónabönd og þungun táningsstúlkna sem knýja áfram mikinn hraða fólksfjölgunar í fátækum og jaðarsettum samfélögum í lágtekjuríkjum. Vert er þó að taka fram að kolefnisspor fólks í lágtekjuríkjum er margfalt minna en fólks í hátekjuríkjum þar sem losun gróðurhúsalofttegunda er langmest.

Um er að ræða stuðning bankans upp á eina og hálfa milljón króna gegn afhendingu SoGreen á rúmlega 280 virkum kolefniseiningum þegar menntun stúlknanna er lokið og verkefnið hefur hlotið viðurkennda vottun. Með stuðningi við verkefnið er horft til nýrrar styrktarstefnu bankans og þeirra Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem bankinn hefur valið að leggja áherslu á, meðal annars markmiðs 5 sem snýr að jafnrétti kynjanna og markmiðs 13 sem snýr að aðgerðum í loftslagsmálum.

Guðný Nielsen, framkvæmdastjóri SoGreen:

„Við í SoGreen erum afskaplega þakklátar fyrir þetta mikilvæga samstarf við Arion banka um þessa áhrifaríku loftslagslausn sem við brennum fyrir. Allt of fáar loftslagsaðgerðir, hvort sem um er að ræða framleiðslu kolefniseininga eða aðrar aðgerðir, eru að gagnast þeim samfélögum sem líða mest fyrir loftslagsbreytingar. Táningsstúlkur í þessum samfélögum eru í raun fyrstu fórnarlömb loftslagsbreytinga því þegar náttúruhamfarir valda uppskerubresti og berskjaldaðar fjölskyldur steypast í enn meiri fátækt grípa foreldrar oft til þess örþrifaráðs að taka dætur sínar úr skóla og gifta þær frá sér til þess að létta byrði fjölskyldunnar. Við í SoGreen erum stórhuga og ætlum að vinna að því að rjúfa þennan vítahring.“

Á meðfylgjandi mynd má sjá Guðnýju Nielsen framkvæmdstjóra SoGreen og Hlédísi Sigurðardóttur sjálfbærnistjóra Arion banka við undirritun samnings.