Starfsfólki Arion banka tryggð 80% launa í fæðingarorlofi

Starfsfólki Arion banka tryggð 80% launa í fæðingarorlofi

Starfsfólki Arion banka tryggð 80% launa í fæðingarorlofi - mynd

Arion banki hefur um árabil lagt ríka áherslu á jafnrétti í starfsemi sinni. Á undanförnum árum hefur verið lögð höfuðáhersla á að einstaklingar fái greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf. Bankinn hlaut fyrst jafnlaunavottun VR árið 2015 og jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins árið 2018. Við síðustu jafnlaunaúttekt var óútskýrður launamunur innan bankans fyrir jafnverðmæt störf kominn niður í 0,1%.

Bankastjóri Arion banka undirritaði á árinu 2020 viljayfirlýsingu um Jafnvægisvogina þar sem fram kemur að Arion banki ætli að vinna markvisst að því að jafna hlut kynjanna í efsta lagi stjórnunar. Í nýrri jafnréttis- og mannréttindastefnu og aðgerðaáætlun bankans er lögð aukin áhersla á að jafna kynjahlutföll innan bankans, ekki einungis á meðal stjórnenda heldur einnig innan starfaflokka, nefnda og starfseininga.

Fleiri feður í fæðingarorlof og konur í hóp stjórnenda

Meðal aðgerða sem Arion banki hefur nú ráðist í til að jafna hlut kynjanna enn frekar er að tryggja starfsfólki 80% launa í fæðingarorlofi í sex mánuði. Þannig mun bankinn þegar við á og í samræmi við reglur Fæðingarorlofssjóðs greiða starfsfólki í fæðingarorlofi sérstakan viðbótarstyrk. Styrkurinn kemur til viðbótar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og kjarasamningsbundnum styrkjum svo að laun í fæðingarorlofi komist sem næst 80% launa. Jafnframt hvetur bankinn starfsfólk til að nýta fæðingarorlofsrétt sinn að fullu.

Staðreyndin er sú að meðallaun karla, bæði í Arion banka og samfélaginu öllu, eru hærri en meðallaun kvenna og feður nýta að jafnaði síður fæðingarorlofsrétt sinn en mæður. Með því að tryggja starfsfólki 80% launa í fæðingarorlofi er foreldrum, óháð kyni eða annarri stöðu, auðveldað að nýta fæðingarorlofsrétt sinn. Þannig miðar aðgerðin m.a. að því að fjölga þeim feðrum sem nýta fæðingarorlofsrétt sinn og til lengri tíma litið getur hún verið liður í að jafna annars vegar meðallaun kynjanna og hins vegar hlut kynjanna í hópi stjórnenda og í ólíkum starfaflokkum, en konur eru í dag 44% stjórnenda bankans.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka:

„Það hefur verið ánægjulegt að sitja í jafnréttisnefnd bankans og taka þátt í að móta nýja aðgerðaáætlun í jafnréttis- og mannréttindamálum. Í þeirri áætlun, sem er til þriggja ára, göngum við lengra en áður í tillögum okkar um aðgerðir til að ná jöfnum kynjahlutföllum, ekki aðeins í efsta lagi stjórnenda heldur í öllum flokkum starfa innan bankans, nefndum og starfseiningum.

Þá hvetjum við starfsfólk til að nýta fæðingarorlofsrétt sinn, óháð kyni eða annarri stöðu. Við viljum auðvelda starfsfólki okkar að taka fæðingarorlof með því að tryggja öllum nýbökuðum foreldrum 80% af launum sínum á þessum dýrmæta og mikilvæga tíma í lífi þeirra og barna þeirra. Jafnframt viljum við með þessu gera Arion banka að enn eftirsóknarverðari vinnustað fyrir ungt og hæfileikaríkt fólk.“