Grænn sjóður er sigurvegari Lausnarmóts Nýsköpunarvikunnar

Grænn sjóður er sigurvegari Lausnarmóts Nýsköpunarvikunnar

Gamithra Marga og Eyþór Máni - myndGamithra Marga og Eyþór Máni

Arion banki, Fjártækniklasinn, Landlæknir og Nýsköpunarvikan tóku höndum saman og stóðu fyrir Lausnarmóti nú um helgina. Arion banki setti fram áskorun til þátttakenda sem snéri að því að nýta færsluupplýsingar til að reikna út kolefnisspor viðskiptavina og hjálpa þeim að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.

Sex teymi skiluðu inn tillögu að lausn og voru þær allar athyglisverðar og úthugsaðar. Teymi skipað Gamithra Marga og Eyþóri Mána bar sigur úr býtum með lausnina Grænn sjóður og óskum við þeim innilega til hamingju.

Það var samdóma álit dómnefndar að Grænn sjóður væri mjög skapandi lausn með skýran ávinning fyrir alla hlutaðeigandi, þ.e. fjármálastofnanir, viðskiptavini og síðast en ekki síst umhverfið. Það að kolefnisjafna og leggja til hliðar sparnað á sama tíma með auðveldum hætti gefur viðskiptavinum mælanlegar aðgerðir til að ýta undir umhverfisvænni hegðun. Kynning teymisins á sigurverkefninu er aðgengileg hér.

Lausnarmót snúast um vandamál og lausnir. Fyrirtæki og stofnanir setja fram krefjandi og skemmtilegar áskoranir og þátttakendur takast á við að leysa þau í teymum. Lausnarmót er þannig keppni í bæði forritun og viðskiptaþróun. Þau eru sérstaklega áhugaverð leið til að fá utanaðkomandi aðila að borðinu og mörg fyrirtæki nota lausnarmót sem vettvang til að finna hæfileikaríka einstaklinga.