Arion banki gefur út heildstæða græna fjármálaumgjörð

Arion banki gefur út heildstæða græna fjármálaumgjörð

Arion banki gefur út heildstæða græna fjármálaumgjörð - mynd

Arion banki hefur gefið út heildstæða græna fjármálaumgjörð sem tekur til fjármögnunar bankans og lánveitinga. Í umgjörðinni er með skýrum og gegnsæjum hætti gerð grein fyrir þeim skilyrðum sem lánveitingar bankans þurfa að uppfylla til að teljast umhverfisvænar. Jafnframt er kveðið á um stjórnskipulag bankans í kringum grænar lánveitingar.

Umhverfisvæn fjármálaþjónusta í þágu sjálfbærrar framtíðar

 Græn fjármálaumgjörð Arion banka verður meðal annars nýtt til að fjármagna bankann með útgáfu grænna skuldabréfa og öflun grænna innlána en ekki síður til að efla umhverfisvænt vöruframboð bankans eins og grænar lánveitingar sem meðal annars geta snúið að orkuskiptum í samgöngum, fasteignum, sjálfbærum sjávarútvegi, mengunarvörnum og endurnýjanlegri orku.

Arion banki fékk verkfræðistofuna Mannvit til liðs við sig til að greina íbúðalánasafn bankans og setja fram nálgun á hvað getur flokkast sem grænt íbúðarhúsnæði hér á landi. Um er að ræða fyrstu skýrslu þessarar tegundar hérlendis og er hún mikilvægt innlegg í umræðuna um grænar byggingar og þróun þeirra á innlendum fasteignamarkaði. Um 12% af því íbúðarhúsnæði sem Arion banki hefur lánað til fellur undir skilgreiningu Arion banka og Mannvits á grænu íbúðarhúsnæði, auk umhverfisvottaðs íbúðarhúsnæðis.

Græn fjármálaumgjörð Arion banka hefur fengið álit norska matsfyrirtækisins Cicero sem gefur umgjörðinni einkunnina ,,Medium Green“ og stjórnarháttum í tengslum við hana einkunnina ,,Good“. Deutsche Bank veitti ráðgjöf um mótun umgjarðarinnar. Fjármálaumgjörðin er byggð á nýjustu viðmiðum Alþjóðasamtaka aðila á verðbréfamarkaði, ICMA, um græna skuldabréfaútgáfu. Einnig er horft til flokkunarkerfis Evrópusambandsins, EU Taxonomy, og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Umgjörðin er liður í áherslu Arion banka á fjármögnun verkefna sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni uppbyggingu. Bankinn hefur sett sér metnaðarfulla umhverfis- og loftslagsstefnu ásamt aðgerðaáætlun og vill leggja sitt af mörkum til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og náð markmiðum ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040. Arion banki hefur átt í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Klappir grænar lausnir hf. varðandi mat á kolefnisspori bankans frá árinu 2015. Bankinn hefur nú hafið samstarf við Klappir um þróun á lausn sem auðveldar bankanum að meta kolefnisspor lánasafnsins með traustum og öruggum hætti, byggt á samvinnu allra aðila innan virðiskeðjunnar.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka:
Vel hefur gengið að draga úr kolefnisspori í eigin starfsemi bankans á síðastliðnum árum og við höldum áfram á þeirri braut. Nú skila áherslur okkar á umhverfis- og loftslagsmál sér í auknum mæli í fjölbreyttara þjónustu- og vöruframboði bankans en þar liggja helstu tækifæri okkar til að hafa raunveruleg og jákvæð áhrif. Græn innlán bankans og lán til kaupa á umhverfisvænni bílum hafa fengið mjög góðar viðtökur og sömuleiðis sjálfbærir sjóðir Stefnis, dótturfélags Arion banka.

Lítið eru um umhverfisvottað húsnæði hér á landi og aðgengi að gögnum til að meta húsnæði út frá umhverfissjónarmiðum hefur verið ábótavant. Samstarf okkar og Mannvits er því afar mikilvægt til að hjálpa okkur að skilja umhverfisáhrif bygginga hér á landi á líftíma þeirra en við njótum þeirrar sérstöðu hérlendis að nýta nær eingöngu endurnýjanlega orkugjafa. Tækifærin til að gera betur eru þó til staðar, sérstaklega varðandi byggingaefni, orkunýtingu, almenningssamgöngur, endurvinnslu og aðlögun vegna loftlagsbreytinga. Stýring fjármuna í átt að grænni uppbyggingu og hringrásarhagkerfi er afar þýðingarmikil í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Við ætlum að halda áfram á þessari vegferð og græna fjármálaumgjörðin er mikilvægur vegvísir á þeirri leið.“

Sjá meðfylgjandi viðhengi.

Skýrsla Mannvits um græn íbúðalán

Græn fjármálaumgjörð Arion banka

Álit Cicero