Arion banki aðili að PCAF - aðferðafræði til að meta og birta fjármagnaða losun GHL

Arion banki aðili að PCAF - aðferðafræði til að meta og birta fjármagnaða losun GHL

Arion banki aðili að PCAF - aðferðafræði til að meta og birta fjármagnaða losun GHL - mynd

Arion banki gerðist nýverið aðili að Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF). Um er að ræða alþjóðlegan samstarfsvettvang fjármálafyrirtækja sem hefur það meginmarkmið að samræma mat á umfangi losunar gróðurhúsalofttegunda (GHL) sem fjármálafyrirtæki fjármagna í gegnum lánveitingar og fjárfestingar.

Fjármálafyrirtæki geta haft mikil áhrif á umhverfi sitt í gegnum lánveitingar og fjárfestingar. Lánasafn Arion banka nemur í dag um 900 milljörðum króna og í samræmi við loftlags- og umhverfisstefnu bankans hefur bankinn sett sér það markmið að meta umfang losunar gróðurhúsalofttegunda sem tengist safninu. Með því að ganga til samstarfs við PCAF er Arion banki kominn í hóp rúmlega 170 banka og fjárfesta um heim allan sem hafa skuldbundið sig til að nýta aðferðafræði PCAF við mat og birtingu á losun gróðurhúsalofttegunda í tengslum við lánasöfn og fjárfestingar.

Mat á umfangi losunar gróðurhúsalofttegunda sem fjármögnuð er í gegnum lánveitingar og fjárfestingar er forsenda þess að bankinn geti sett sér raunhæf markmið varðandi samdrátt í losuninni. Með slíkri markmiðssetningu leggur bankinn sín lóð á vogarskálarnar til þess að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og öðrum innlendum og alþjóðlegum umhverfis- og loftslagssáttmálum.

Frá árinu 2015 hefur Arion banki mælt kolefnisspor vegna reksturs bankans í samstarfi við Klappir grænar lausnir. Bankinn hefur síðan þá náð að draga úr losun í eigin rekstri um 35% í tengslum við húsnæði og bifreiðar. Jafnframt hefur bankinn átt samstarf við Kolvið síðustu tvö ár varðandi bindingu kolefnis til mótvægis við kolefnislosun bankans.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka:

„Að bregðast við loftslagsvandanum er eitt stærsta og mikilvægasta verkefnið sem heimurinn stendur frammi fyrir. Nauðsynlegt er að þar leggist allir á árar, ekki síst bankar og aðrar fjármálastofnanir. Undanfarin ár höfum við mælt og birt upplýsingar um kolefnislosun vegna reksturs bankans, sett okkur markmið og náð góðum árangri. Mestu áhrifin sem bankar hafa á umhverfið eru hins vegar í gegnum lánveitingar og nú ætlum við að meta þann þátt. Það er flókið verk að meta umfang losunar gróðurhúsalofttegunda í tengslum við lánasöfn og aðgengi er ekki alltaf gott að nauðsynlegum gögnum, en sú aðferðafræði sem PCAF hefur þróað felur í sér góða nálgun sem bankar um allan heim eru að tileinka sér. Til að auka gæði þeirra gagna sem liggja að baki matinu höfum við ásamt fleiri fjármálafyrirtækjum samið við Klappir grænar lausnir um þróun lausnar sem getur streymt upplýsingum um kolefnislosun viðskiptavina beint til okkar. Við hjá Arion banka erum á þeirri vegferð að beina fjármunum í æ ríkari mæli í verkefni sem fela í sér samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda í takti við okkar grænu fjármálaumgjörð, græn innlán og nýlega græna skuldabréfaútgáfu.“