Grænn vöxtur Arion banka

Grænn vöxtur Arion banka

Grænn vöxtur Arion banka - mynd
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka - mynd
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka

Viðskiptavinum Arion banka býðst nú að leggja sparnað sinn inn á vistvænan innlánsreikning sem kallast Grænn vöxtur. Um er að ræða nýjung hér á landi þar sem einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki geta lagt fjármuni inn á reikning sem eingöngu verður ráðstafað til fjármögnunar umhverfisvænna verkefna. Grænn vöxtur er óverðtryggður innlánsreikningur sem er óbundinn og því eru innlánin laus til úttektar hvenær sem er.

Það er eitt meginhlutverk banka að miðla fjármagni frá þeim sem eiga sparnað til þeirra sem þurfa lán og gegna innlán þar mikilvægu hlutverki. Öllum innlánum, sem lögð eru inn á Grænan vöxt, verður miðlað til vistvænna verkefna í samræmi við umgjörð Arion banka um græn innlán. Fyrst um sinn verður innlánunum miðlað í lán til kaupa á bílum sem nýta umhverfisvæna orkugjafa.

Fyrirtækið CIRCULAR Solutions hefur tekið út umgjörð bankans um græn innlán. Fyrirtækið gegnir hlutverki óháðs aðila og mun gera árlega úttekt á því hve vel fjármögnuð verkefni uppfylla skilyrði umgjarðarinnar og meta umhverfisáhrif þeirra.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka:

„Græn innlán Arion banka eru hugsuð fyrir alla sem vilja leggja sitt af mörkum til umhverfisvænni framtíðar og það á vel við að byrja á grænum bílalánum þar sem nánast allt rafmagn hér á landi er framleitt með sjálfbærum hætti. Við höfum sett okkur umhverfis- og loftslagsstefnu sem felur í sér að við ætlum að beina sjónum okkar að verkefnum sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni innviðauppbyggingu og þessi nýi innlánsreikningur er einn liður í því. Við viljum að Ísland standi við skuldbindingar sínar í umhverfis- og loftslagsmálum og höfum fullan hug á að auðvelda viðskiptavinum okkar að velja umhverfisvænni kosti. Í baráttunni við loftslagsbreytingarnar er hvert skref mikilvægt."

Á sviði bílalána býður Arion banki góða valkosti fyrir þá sem kjósa bifreiðar knúnar umhverfisvænum orkugjöfum. Engin lántökugjöld eru af bílalánum Arion banka vegna rafmagnsbíla og annarra bifreiða sem ganga fyrir 100% endurnýjanlegum orkugjöfum. Veittur er 50% afsláttur af lántökugjöldum við fjármögnun annarra vistvænna bíla sem nota að hluta til endurnýjanlega orkugjafa og að hluta jarðefnaeldsneyti og eru með minni útblástur en 99 g/km í vegið CO2 gildi.

Með því að leggja sparnaðinn inn á Grænan vöxt styðja viðskiptavinir og Arion banki við eftirfarandi heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Markmið 7 um sjálfbæra orku, markmið 9 um nýsköpun og uppbyggingu, markmið 11 um sjálfbærar borgir og samfélög og markmið 13 um aðgerðir í loftlagsmálum.