Reitun gefur Arion banka framúrskarandi einkunn í UFS áhættumati

Reitun gefur Arion banka framúrskarandi einkunn í UFS áhættumati

Reitun gefur Arion banka framúrskarandi einkunn í UFS áhættumati - mynd

Arion banki hlýtur framúrskarandi einkunn í UFS áhættumati Reitunar með 86 stig af 100 mögulegum og er þar í flokki A3. Matið byggist á árangri bankans á sviði umhverfis-, félags- og stjórnarhátta (UFS). Um þrjátíu innlendir útgefendur hafa farið í gegnum mat Reitunar og er meðaleinkunn þeirra 60 stig.

Í niðurstöðunum Reitunar kemur meðal annars fram að innleiðing UFS áherslna í fjárfestinga- og útlánastarfsemi fjármálafyrirtækja sé stór áhættuþáttur. Arion banki hafi sýnt nýsköpun á því sviði og þróað aðferðafræði til að meta fjárfestingarkosti, fyrst og fremst skráð fyrirtæki, m.t.t. UFS. Veiti hann fyrirtækjunum aðstoð og eftirfylgni við að standa betur að málaflokkunum og nýti þannig áhrifavald sitt á jákvæðan hátt. Bankinn vinnur áfram að markmiðum sínum varðandi þróun græns ramma um útlánastarfsemi sína og mun meta kolefnisfótspor lánasafnsins.

Bankinn veitir betri lánakjör vegna kaupa á vistvænum fararskjótum og býður upp á grænan innlánsreikning sem er nýjung í bankaþjónustu á Íslandi. Að mati Reitunar er jákvætt að bankinn leggi sig fram um að taka tillit til umhverfissjónarmiða í starfsemi sinni og styðji þannig við þróun samfélagsins í átt að frekari sjálfbærni.

Þá kemur fram upplýsingaöryggi sé stór áhættuþáttur í fjármálastarfsemi og að Arion banki stýri þeim áhættuþætti markvisst. Vel sé staðið að mannauðsmálum innan bankans og að hugað sé að umhverfismálum í innri starfsemi.

Ólafur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Reitunar:

„Arion banki nær framúrskarandi árangri í UFS áhættumatinu og sýnir þannig gott fordæmi á íslenskum markaði. Bankinn er annað tveggja fyrirtækja sem nær hæstri samanlagðri UFS einkunn og er fyrir ofan meðaltal í öllum flokkum. Arion banki hefur tekið mikilvæg skref við innleiðingu á ábyrgri hugsun í þjónustuframboð sitt, hvort sem varðar innlán, útlán, eignastýringu eða birgjamál. Bankinn er því í góðri stöðu til að hafa jákvæð samfélagsleg áhrif á nærumhverfi sitt í gegnum haghafa sína. Mikilvægt er að bankinn hugi áfram að þessum málum til framtíðar og beiti sér þar sem þess er kostur.“

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka:

Það er virkilega ánægjulegt að Reitun gefi Arion banka þennan góða vitnisburð. Rekstur okkar, þróun vöruframboðs, stýring fjármuna og ákvarðanir taka sífellt meira mið af UFS þáttum. Eignastýring bankans hefur á undanförnum árum lagt áherslu á að meta fjárfestingakosti á þessum grunni og við erum að þróa grænan ramma utan um útlánastarfsemi okkar. Grænu innlánin, sem við kynntum nýlega, hafa hlotið mjög góðar viðtökur hjá viðskiptavinum okkar. Við erum staðráðin í að þróa vöru- og þjónustuframboð okkar enn frekar í þessa átt.“

Samantekt á niðurstöðum UFS áhættumats Reitunar