Reitun gefur Arion banka framúrskarandi einkunn í UFS áhættumati

Reitun gefur Arion banka framúrskarandi einkunn í UFS áhættumati

Höfuðstöðvar Arion banka, Borgartúni 19 - myndHöfuðstöðvar Arion banka, Borgartúni 19

Arion banki hlýtur framúrskarandi einkunn í UFS áhættumati Reitunar. Bankinn er með hæstu einkunn ásamt einum öðrum útgefanda eða 90 stig af 100 mögulegum og er í flokki A3. Matið byggist á árangri bankans á sviði umhverfis- og félagsþátta og stjórnarhátta (UFS). Bankinn er vel fyrir ofan meðaltal í öllum flokkum en 34 aðilar hafa farið í gegnum matið.

Í niðurstöðum Reitunar kemur meðal annars fram að bankinn skilgreini sjálfbærniáhættu sem eina af megináhættum í starfsemi sinni og að sjálfbærni sé með formlegum hætti hluti af stjórnskipulagi bankans og falli þar undir ábyrgðarsvið stjórnar og bankastjóra. Fyrir fjármálafyrirtæki er innleiðing á UFS þáttum í eignastýringa- og lánastarfsemi afar mikilvæg og er það mat Reitunar að bankinn vinni þar vel. Þá hefur bankinn skuldbundið sig til að vinna eftir viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi (e. UN PRB) og er þátttakandi í PCAF, loftlagsmæli fyrir fjármálafyrirtæki, en markmið bankans er að mæla kolefnisspor lánasafnsins fyrir árslok 2022.

Um mitt ár 2021 birti bankinn græna fjármálaumgjörð og fór í sínu fyrstu grænu skuldabréfaútgáfu. Grænn innlánsreikningur bankans, sem var settur á laggirnar um mitt ár 2020, hefur hlotið góðar viðtökur og bankinn býður jafnframt upp á græn bílalán, græn íbúðarlán og græn fyrirtækjalán. Þá hefur Stefnir, dótturfélag bankans, stofnað þrjá sjálfbæra sjóði á árinu 2021.

Að mati Reitunar er vel staðið að mannauðsmálum innan bankans og mælist starfsánægja há. Einnig er hugað vel að umhverfismálum í innri starfsemi. Niðurstaðan endurspeglar það mat Reitunar að Arion banki sýni mikinn vilja til að gera vel þegar kemur að sjálfbærni og hafi náð góðum árangri á því sviði. Einnig að bankinn þekki vel þau áhrif sem hann getur haft, samfélaginu og umhverfinu til góða, og sé gott fordæmi fyrir íslenskan markað.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka:

„Reitun hefur í annað sinn tekið Arion banka út í tengslum við frammistöðu í umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum. Bankinn fær aftur framúrskarandi einkunn sem er afar ánægjuleg niðurstaða. Frá síðustu úttekt Reitunar höfum við meðal annars gefið út heildstæða græna fjármálaumgjörð, farið í okkar fyrstu grænu skuldabréfaútgáfu og veitt fyrsta græna fyrirtækjalánið. Við kynntum jafnframt það úrræði að tryggja starfsfólki bankans 80% launa í fæðingarorlofi. Þar er markmið okkar að auðvelda starfsfólki að taka fæðingarorlof og vonumst við til þess að með þessu fjölgi bæði feðrum sem taka langt fæðingarorlof og konum í hópi stjórnenda. Þessi góða einkunn sem bankinn fær í mati Reitunar er okkur hvatning til að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á hvað ábyrga og sjálfbæra bankastarfsemi varðar.“

Ólafur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Reitunar:

„Niðurstöður endurspegla mat Reitunar á því að bankinn leggur áherslu á og tekur sjálfbærnimál föstum tökum í starfseminni allri. Hann hlýtur hæstu einkunn, flokkur A3, með 90 stig í UFS mati Reitunar. Bankinn hefur mikil tækifæri á að hafa jákvæð áhrif og hvetja viðskiptavini sína áfram til aukinnar sjálfbærni. Hann hefur þar tekið mikilvæg skref og hefur á árinu lagt aukna áherslu á sjálfbærni í vöru- og þjónustuframboði. Þá er afar jákvætt að stjórnskipulag um sjálfbærni er skýrt og nær til stjórnar og bankastjóra. Bankinn nær framúrskarandi árangri í UFS matinu og hafa niðurstöður jafnframt jákvæð áhrif inn í virðismat félagsins hjá Reitun.“

Arion banki UFS reitun - Samantekt á niðurstöðum 2021