Arion banki, Stefnir og Vörður aðilar að viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar

Arion banki, Stefnir og Vörður aðilar að viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar

Arion banki, Stefnir og Vörður aðilar að viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar - mynd

Í dag undirritaði Arion banki, ásamt dótturfélögunum Stefni og Verði og fjölda annarra fyrirtækja á fjármálamarkaði, viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar.

Forsætisráðuneytið, Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni, Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og Landssamtök lífeyrissjóða (LL) unnu að mótun yfirlýsingarinnar í víðtæku samráði við fulltrúa helstu aðila á fjármálamarkaði. Viljayfirlýsingin er í takti við stefnu Arion banka og markmið í þágu aukinnar sjálfbærni.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka:

,,Við beinum nú sjónum okkar í æ ríkari mæli að fjármögnun verkefna sem stuðla að sjálfbærri þróun og grænni uppbyggingu. Við erum búin að meta lánasafn bankans út frá grænum viðmiðum og vinnum að því að setja metnaðarfull markmið í þeim efnum. Við vinnum almennt að því að þróa vöruúrval okkar í þá átt að geta stutt betur við viðskiptavini sem vilja velja sjálfbæra kosti. Sem dæmi bjóðum við nú, fyrst íslenskra banka, upp á grænan innlánsreikning sem við köllum Grænan vöxt. Okkur er afar umhugað um að leggja okkar af mörkum svo að Íslendingar geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og öðrum innlendum og alþjóðlegum sáttmálum sem snúa að umhverfis- og loftslagsmálum.“

Arion banki tekur þátt í víðtæku samstarfi á sviði samfélagsábyrgðar og hefur undirgengist bæði innlendar og erlendar skuldbindingar á því sviði. Bankinn er m.a. aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (PRI), meginreglum Sameinuð þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi (PRB) og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja, UN Global Compact. Arion banki er virkur þátttakandi í mótun og þróun ábyrgra fjárfestinga á Íslandi og einn af stofnaðilum IcelandSIF, félags íslenskra fjárfesta um ábyrgar fjárfestingar. Þá hefur bankinn fengið viðurkenningu fyrir að vera fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum og hefur hlotið jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins.

Nánari upplýsingar um samfélagsábyrgð Arion banka má finna hér.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, Þóreyju S. Þórðardóttur framkvæmdastjóra LL, Hrund Gunnsteinsdóttur framkvæmdastjóra Festu, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Katrínu Júlíusdóttur framkvæmdastjóra SFF við undirritun í dag.