Krefjandi en líka afar gefandi að reka sprotafyrirtæki

Krefjandi en líka afar gefandi að reka sprotafyrirtæki

Krefjandi en líka afar gefandi að reka sprotafyrirtæki - mynd

Til að vinna í sprotafyrirtæki, hvað þá stofna eitt slíkt, þarf að búa yfir eldmóði og hafa ástríðu fyrir verkefnum sínum. Ekki spillir heldur fyrir að kunna vel við samstarfsfélaga sína, vera tilbúinn að leggja mikið á sig og vinna langa vinnudaga. Allt getur þetta reynt á þolrifin - en þegar vel gengur er líka fátt meira gefandi.

Þetta var á meðal þess sem fram kom á vel sóttum viðburði Arion banka á Iceland Innovation Week þann 14. maí síðastliðinn, sem haldinn var undir yfirskriftinni „How to Become Bankable“. Sjónum var sérstaklega beint að því hvernig sprotar geta lyft rekstrinum upp á næsta stig og orðið „bankable“, sem felur í sér að ávinna sér lánstraust hjá bönkum og fjármálastofnunum og þurfa því ekki lengur að reiða sig á styrki og fjármagn frá fjárfestum.

Jarþrúður Ásmundsdóttir, viðskiptastjóri hjá Arion banka, sagði frá ánægjulegu samstarfi bankans við alls kyns sprotafyrirtæki í áranna rás og helstu vörum sem bankinn býður upp á og henta þessum fyrirtækjum, en bankinn hefur um árabil stutt við nýsköpun í fjölda atvinnugreina.

Næst stýrði Helga Sigurrós Valgeirsdóttir, forstöðumaður á fyrirtækja og fjárfestingabankasviði Arion banka, fjörugum pallborðsumræðum þar sem þátttakendur komu úr ýmsum áttum: Ívar Kristjánsson frá 1939 Games, Berglind Rán Ólafsdóttir frá Orf líftækni og Helgi Már Hrafnkelsson frá Venju röktu sögu fyrirtækja sinna og sögðu frá margvíslegum áskorunum í fjármögnunarferlinu, og Helga Valfells hjá Crowberry Capital lýsti því hvernig hún finnur spennandi fjárfestingarkosti, en sem stendur fjárfestir Crowberry Capital í á fjórða tug fyrirtækja. Fulltrúar fyrirtækjanna töluðu enn fremur um mikilvægi þess að vaxtarfyrirtæki væru í góðum tengslum við bankann sinn og þekktu fólkið þar – og að bankinn hefði innsýn í rekstur þeirra og skildi helstu áskoranirnar.

Að pallborðinu loknu gafst viðstöddum færi á að staldra við í góðum félagsskap og njóta veitinga í einstöku blíðskaparveðri.