Helstu þættir í umhverfisuppgjöri Arion banka fyrir árið 2020

Helstu þættir í umhverfisuppgjöri Arion banka fyrir árið 2020

Helstu þættir í umhverfisuppgjöri Arion banka fyrir árið 2020 - mynd

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í rekstri Arion banka, þ.e. vegna bifreiða og húsnæðis bankans, hefur dregist saman um 34,7% frá árinu 2015. Þar af hefur heildarlosun vegna bifreiða dregist saman um 55,4,% og vegna húsnæðis um 15,8%. Helsta tækifærið til að draga enn frekar úr losun er að hætta alfarið kaupum á eldsneyti fyrir bíla. Bankinn mun ekki kaupa inn bíla nema þeir noti 100% endurnýjanlega orkugjafa frá og með árinu 2023 og er það liður í að draga úr losun í eigin rekstri um a.m.k. 40% fyrir árið 2030.

Fyrir liggur að setja upp hleðslustöðvar fyrir framan Borgartún 19 fyrir starfsfólk og viðskiptavini. Í bílakjallara í höfuðstöðvum eru tenglar fyrir starfsfólk til að hlaða og er ráðgert að gera aðgengi að þeim enn betra.

Auk þess að hafa sett okkur metnaðarfull markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er Arion banki í samstarfi við Kolvið varðandi mótvægisaðgerðir. Kolviður gróðursetur um 4.700 tré til að vega upp á móti losun ársins 2020 vegna eigin reksturs, þ.e. húsnæðis og bíla, en einnig vegna flugferða og leigubílaferða, sorps og samgangna starfsfólks til og frá vinnu. Þá hefur Arion banki styrkt Skógræktarfélag Íslands myndarlega til fjölda ára.

Nánari upplýsingar um umhverfismál Arion banka má finna í árs- og samfélagsskýrslu 2020, undir kaflanum Virðing fyrir umhverfinu og í töflunni sem sýnir ófjárhagslegar upplýsingar.