Vinna við fyrsta áfanga deiliskipulags íbúðabyggðar að Blikastöðum er hafin

Vinna við fyrsta áfanga deiliskipulags íbúðabyggðar að Blikastöðum er hafin

Vinna við fyrsta áfanga deiliskipulags íbúðabyggðar að Blikastöðum er hafin - mynd

Nýverið samþykkti skipulagsnefnd Mosfellsbæjar að heimila skipulagsfulltrúa bæjarins að hefja undirbúning vinnu við mótun fyrsta áfanga deiliskipulags íbúðarbyggðar að Blikastöðum. Undirbúningur deiliskipulagsins mun taka mið af tillögu um rammaskipulag landsins og frumdrögum aðalskipulags. Er þetta mikilvægur áfangi á þessari vegferð.

Blikastaðaland er um 82 hektarar og er stærsta óbyggða landsvæði höfuðborgarsvæðisins. Landið er í eigu Arion banka í gengum félagið Blikastaðaland hf. og náðust á síðasta ári samningar við Mosfellsbæ varðandi framtíð og uppbyggingu landsvæðisins. Gert er ráð fyrir að fjöldi íbúða verði um 3.700, blanda fjölbýlis og sérbýlis, auk 150 íbúða fyrir 55 ára og eldri, skóla, íþróttaaðstöðu og atvinnuhúsnæðis. Samkomulagið við Mosfellsbæ felur í sér að Blikastaðaland hf. taki þátt í uppbyggingu svæðisins.

Hverfið verður hannað frá grunni sem fjölbreytt og blönduð byggð þar sem fólk getur sinnt helstu erindum fótgangandi eða með almenningssamgöngum þar sem Borgarlínan verður í burðarhlutverki. Með því er stuðlað að betri nýtingu náttúrugæða, orku og innviða sem sýnir ábyrgð í umhverfismálum og tryggir lífsgæði komandi kynslóða. Í allri hönnun verður tekið mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Nánar má lesa um verkefnið hér.