Arion banki einn af bakhjörlum Heimsþings kvenleiðtoga

Arion banki einn af bakhjörlum Heimsþings kvenleiðtoga

Arion banki einn af bakhjörlum Heimsþings kvenleiðtoga - mynd

Arion banki hefur undirritað samkomulag um að vera einn af íslenskum bakhjörlum Heimsþings kvenleiðtoga. Heimsþing kvenleiðtoga er haldið af Reykjavik Global Forum, Alþingi og ríkisstjórn Íslands í samstarfi við alþjóðlegu þingkvennasamtökin WPL og fjölmarga innlenda og erlenda styrktaraðila. Heimsþingið er haldið ár hvert í Hörpu og þangað mæta um 500 kvenleiðtogar frá um 80 löndum. Þingið fer fram 13. og 14. nóvember næstkomandi.

„Við teljum Heimsþingið gegna afar mikilvægu hlutverki í að vekja athygli á og stuðla að auknu jafnrétti kynjanna á heimsvísu og fjármálageirinn er ein þeirra atvinnugreina þar sem kynjahallinn er vissulega mun meiri en hann ætti að vera,“ segir Iða Brá Benediktsdóttir, aðstoðarbankastjóri Arion banka. „Við viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar og stuðla að auknu jafnrétti og teljum að samtal kvenleiðtoga alls staðar að úr heiminum með áherslu á Heimsmarkmið SÞ og samfélagslega ábyrgð styðji vel við okkar áherslur.“

Hanna Birna Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Reykjavik Global Forum fagnar samstarfinu við Arion banka en íslenskir samstarfsaðilar eru valdir af kostgæfni og horft til þess að þeir styrki þingið og auki líkur á að heimurinn færist nær þeim markmiðum sem stefnt er að. „Arion banki bætist í hóp metnaðarfullra innlendra og erlendra samstarfsaðila sem leggja áherslu á jafnrétti kynjanna og vilja stuðla að því að reynsla Íslands á því sviði nýtist til árangurs,“ segir Hanna Birna.

Meðfylgjandi mynd var tekin við undirritun samkomulagsins. Á myndinni eru f.v. Helga Lára Hauksdóttir, verkefnastjóri á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði Arion banka, Iða Brá Benediktsdóttir, aðstoðarbankastjóri Arion banka, Hanna Birna Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Reykjavík Global Forum, Hlédís Sigurðardóttir, sjálfbærnistjóri Arion banka, og Eyrún Þórsdóttir, framkvæmdastýra Reykjavík Global Forum.