Arion banki gefur út græn skuldabréf í fyrsta sinn fyrir 300 milljónir evra

Arion banki gefur út græn skuldabréf í fyrsta sinn fyrir 300 milljónir evra

Arion banki gefur út græn skuldabréf í fyrsta sinn fyrir 300 milljónir evra - mynd

Arion banki gaf í dag út græn skuldabréf til fjögurra ára að upphæð 300 milljónir evra eða sem nemur rúmum 44 milljörðum íslenskra króna. Um er að ræða fyrstu grænu skuldabréfaútgáfu Arion banka. Umframeftirspurn var eftir skuldabréfunum en í heild bárust tilboð frá yfir 70 fjárfestum fyrir rúmlega 600 milljónir evra.
Skuldabréfin voru seld á kjörum sem jafngilda 0,80% álagi á millibankavexti. Deutsche Bank AG, Barclays Bank Ireland PLC, ABN Amro Bank N.V. og Citigroup Global Markets Europe sáu um útgáfuna fyrir hönd bankans.

Arion banki gaf nýverið út heildstæða græna fjármálaumgjörð sem tekur til fjármögnunar bankans og lánveitinga. Í umgjörðinni er með skýrum og gegnsæjum hætti gerð grein fyrir þeim skilyrðum sem lánveitingar bankans þurfa að uppfylla til að teljast umhverfisvænar. Jafnframt er kveðið á um stjórnskipulag bankans í kringum grænar lánveitingar.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka
Það er mjög ánægjulegt að sjá hversu vel okkar fyrsta græna skuldabréfaútgáfa hefur gengið en mikil eftirspurn var eftir bréfunum meðal erlendra fjárfesta. Kjörin á skuldabréfaútgáfunni eru betri en bankinn hefur fengið á undanförnum árum. Græn skuldabréfaútgáfa styður við umhverfis- og loftslagsstefnu bankans auk þess sem hún stækkar fjárfestahóp bankans og bætir þannig aðgengi að lánsfé á hagstæðum kjörum. Útgáfan mun hjálpa bankanum að bjóða betri kjör til viðskiptavina þegar kemur að lánveitingum sem stuðla að sjálfbærri þróun og grænni uppbyggingu."